Innskráning í Karellen
Einkunnarorð Heilsuleikskólans Álfasteins eru ,,Með sól í hjarta”. Unnið er eftir hugmyndafræði Heilsustefnunnar og Jákvæðs aga auk þess að gera verkefni tengd Grænfána Landverndar. Mikil áhersla er lögð á umhyggju fyrir barninu sem einstaklingi með réttindi og skyldur. Barnið á rétt á að þroskast í gegnum leik á eigin forsendum eins og frekast er unnt og velja sér viðfangsefni undir leiðsögn kennara. Í leikskólanum á að vera gaman að leika sér og vera til. Lögð er áhersla á virðingu og jákvæðni í samskiptum á milli allra í leikskólanum. Með leikskólastarfinu er einnig miðað að því að sjá börnin þróa með sér sterka sjálfsmynd, lífsgleði og ánægju, ásamt því að þau verði sjálfsöguð og fær um að sýna virðingu og vináttu í samskiptum. Leitast er við að börnin læri að bera virðingu fyrir náttúrunni og njóta hennar. Í daglegu starfi er því leitað í og fjallað um það umhverfi sem næst er barninu, barnið sjálft og fjölskyldu þess. Lögð er áhersla á að viðhalda íslenskum siðum og venjum, jafnhliða því að opna augu barnanna fyrir fjölmenningu og fjölbreytileika lífsins.


Meginmarkmið Álfasteins taka mið af námssviðunum fjórum sem útlistuð eru í Aðalnámskrá leikskóla. Þessi markmið eru:

  • Að börnin efli leik- og sköpunargleði sína. (Sköpun og menning)
  • Að börnin hafi virðingu og vináttu að leiðarljósi í samskiptum. (Læsi og samskipti)
  • Að börnin verði meðvituð og læs á náttúruna og umhverfið. (Sjálfbærni og vísindi)
  • Að börnin verði meðvituð um mikilvægi hreyfingar og hollustu. (Heilbrigði og vellíðan)