Innskráning í Karellen

Heilsuleikskólinn Álfasteinn í Hörgársveit er staðsettur rétt norðan við sveitarfélagamörk Hörgársveitar og Akureyrar. Hann stendur ofan við þjóðveginn, umlukinn trjágróðri og sveitasælu. Nafn leikskólans er dregið af bóndabænum Dvergasteini sem er norðan við Álfastein og stóra steininum á leikskólalóðinni sem kom upp úr grunninum þegar leikskólinn var byggður.

Leikskólinn er einsetinn, opinn frá 7:45 til 16:15. Þegar hann tók til starfa 30. júlí árið 1995 var hann 114 fm. með rými fyrir 16 börn. Þann 9. júní 2007 var 160 fm. viðbygging við leikskólann vígð, þann 9. ágúst 2019 var vígsla á 109 fm. viðbyggingu og loks 19. mars 2021 var opnuð ný 150 fm. deild sem inniheldur líka sérkennsluherbergi og glæsilegan sal með aðstöðu fyrir hreyfingu og samveru. Í dag er hann því 550 fm. með rými fyrir 70 börn.


Einkunnarorð Álfasteins eru: „Með sól í hjarta“

Mikil áhersla er lögð á umhyggju fyrir barninu sem einstaklingi með réttindi og skyldur. Barnið á rétt á að þroskast í gegnum leik á eigin forsendum eins og frekast er unnt og velja sér viðfangsefni undir leiðsögn kennara. Á Álfasteini á að vera gaman að leika sér og vera til yfirleitt. Með leikskólastarfinu viljum við líka sjá börnin þróa með sér sterka sjálfsmynd, lífsgleði og ánægju. Þau verði sjálfsöguð, líti á hreyfingu og hollustu sem hluta af daglegu lífi og séu fær um að sýna virðingu og vináttu í samskiptum. Jafnframt viljum við stuðla að alhliða þroska þeirra.

Í daglegu starfi leggjum við áherslu á það umhverfi sem næst er barninu, barnið sjálft og fjölskyldu þess. Lögð er áhersla á að viðhalda íslenskum siðum og venjum, jafnhliða því að opna augu barnanna fyrir fjölmenningu og fjölbreytileika lífsins.


Stefna leikskólans:

 • að börnin öðlist leik- og sköpunargleði.
 • að börnin hafi virðingu og vináttu að leiðarljósi í samskiptum.
 • að börnin verði meðvituð um náttúruna og umhverfið.
 • að börnin verði meðvituð um mikilvægi hreyfingar og hollustu.


Leiðir að markmiðum eru:

Að börnin öðlist leik- og sköpunargleði.

 • Gefum frjálsum leik og listsköpun alltaf nægan tíma og rúm í dagskipulagi skólans.
 • Stuðlum að því að börnin öðlist öryggi í leik- og listsköpun.
 • Hvetjum börnin til að leika sér og skapa bæði ein og í hóp.
 • Stuðlum að því að börnin geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir um val á viðfangsefnum.
 • Hvetjum börnin til að vinna út frá eigin skynjun og hugmyndum.
 • Höfum aðgengilegan margskonar efnivið í listsköpun og leik sem vekur forvitni og rannsóknarlöngun barnanna.
 • Kynnum börnunum íslenskar hefðir og fjölbreytta menningu.

Að börnin hafi virðingu og vináttu að leiðarljósi í samskiptum.

 • Hvetjum börnin til að sýna öðrum hlýlegt og vingjarnlegt viðmót.
 • Leggjum áherslu á að börnin læri að leysa úr ágreiningsmálum.
 • Börnin nýti sér Jákvæðan aga til að auka félagsfærni og lífsleikni sína.
 • Heilsumst og tökum undir kveðjur með bros á vör.
 • Erum vakandi fyrir því að hrósa og hvetja börnin.
 • Erum heiðarleg og hreinskilin í samskiptum hvert við annað.
 • Hvetjum börnin til að eiga frumkvæði og sýna sjálfstæði í starfi.
 • Hvetjum börnin til að tala saman og hlusta hvert á annað.

Að börnin verði meðvituð um náttúruna og umhverfið.

 • Kynnum fyrir börnunum dýr og gróður.
 • Förum í vettvangs- og gönguferðir.
 • Kynnum börnunum endurvinnslu og mikilvægi hennar fyrir náttúruna.
 • Kynnum börnunum breytileika náttúrunnar frá einni árstíð til annarrar.

Að börnin verði meðvituð um mikilvægi hreyfingar og hollustu.

 • Bjóðum upp á hollt og gott fæði.
 • Stuðlum að daglegri hreyfingu barnanna úti og inni.
 • Fræðum börnin um næringu og heilbrigði gegnum leik og starf.
 • Eflum líkamsvitund barnanna og aukum hreyfifærni þeirra.


Með eflingu þessara þátta ýtum við undir alhliða þroska barna á leikskólaaldri. Það er þau fá góða fræðslu um næringu og hreyfingu og góða sjálfsvitund. Mikla æfingu í félagslegum samskiptum ásamt því að efla forvitni og auka færni sína til þekkingaröflunar.