Innskráning í Karellen


Heilsustefnan

Framtíðarsýn Heilsuleikskólans er sú að komandi kynslóð leikskólabarna þurfi að búa yfir lífsleikni. Sú sýn felur í sér að efla sjálfstæði, samviskusemi og heiðarleika þar sem kurteisir og glaðir einstaklingar virða sérkenni hvers og eins. Um er að ræða lítil börn og það er langt í fullorðinsárin, en hér verður grunnurinn lagður að einstaklingum sem temja sér gagnrýna og skapandi hugsun, sem kjósa að lifa heilbrigðu lífi, huga vel að andlegri og líkamlegri heilsu og umgangast allt líf af nærgætni, virðingu og umburðarlyndi. Með þessu fólki getum við horft fram á samfélag sem er lýðræðislegt og sanngjarnt, þar sem allir fá að njóta sín.

(Guðlaug Sjöfn Jónsdóttir, 2006, bls. 25)


Yfirmarkmið Heilsuleikskóla er: að auka gleði og vellíðan barnanna með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik.

Næring

 • borða hollan og næringarríkan mat
 • fjalla um mikilvægi fæðuhringsins
 • börnin verði meðvituð um hollustu og óhollustu matar
 • matarhefðir verði í hávegum hafðar

Áhersla er lögð á að boðið sé upp á hollan og næringarríkan mat í leikskólanum. Farið er eftir matseðlum sem næringarráðgjafi hefur sett saman með það að markmiði að börn fái um 70% af næringarþörf sinni í leikskólanum. Þá er einnig farið eftir ráðleggingum Landlæknisembættisins m.a. hvað varðar notkun á harðri fitu, salti og sykri í matargerð. Lögð er áhersla á að matartímar séu rólegar og ánægjulegar stundir þar sem tækifæri gefst til umræðna um matinn, hollustu hans og allt milli himins og jarðar. Börnin hjálpa til við að leggja á borð og ganga frá eftir sig. Haldið er í íslenskar hefðir í mat t.d. er boðið upp á hátíðarmat fyrir jól, þorramat, rjómabollur á bolludegi, saltkjöt og baunir á sprengidegi o.fl.

Hreyfing

 • auka vitneskju um líkamann
 • styrkja sjálfsmynd
 • stuðla að betri hreyfifærni
 • auðvelda samskipti
 • læra hugtök

Börnin fara einu sinni í viku í skipulagða íþróttatíma í salnum okkar en auk þess eiga hóparnir meiri tíma í salnum sem stundum er notaður í leik með t.d. kubba en stundum í hreyfingu. Það fara allir í útiskóla þar sem mikið er um hreyfingu og á lóðinni eru mörg tækifæri fyrir fjölbreytta hreyfingu, kastali, rennibraut, körfuboltaspjald, fótboltamörk, rólur og fleira og stundum er farið í leiki í útiveru.

Listsköpun í leik

 • örva sköpunargleði
 • auka hugmyndaflug
 • kynnast mismunandi efniviði og handfjatla hann
 • skynja fegurð í umhverfinu

Hver hópur fer a.m.k. einu sinni í viku í listsköpunartíma þar sem unnið er með fjölbreyttan efnivið og hugmyndaflug og sköpunargleði barnanna fær að njóta sín. Við sækjum efnivið í skóginn okkar t.d. laufblöð, greinar, köngla og steina og notum annan verðlausan efnivið sem til fellur eins og klósettrúllur, eggjabakka, mjólkurfernur o.fl. Einu sinni í viku kemur tónlistarkennari í leikskólann til að kynna ýmsar hliðar tónlistar í gegnum leiki fyrir tveimur elstu árgöngunum. Í hópastarfi er líka möguleiki að nota hljóðfæri sem leikskólinn á til tónlistarsköpunar og það eru líka til margir búningar sem börnin nota til að bregða sér í hin ýmsu hlutverk og prófa sig áfram í leiklistinni.

Svefn

Hvíld er mikilvægur hluti af heilbrigðum lífsstíl ekki síður en hreyfing og næring. Í svefni gerist margt í líkamanum sem er okkur nauðsynlegt, m.a. fer fram viðhald á frumum og líkamsvefjum og þá er líka aukin framleiðsla vaxtarhormóns þannig að það má segja að börn stækki á meðan þau sofa. Svefn er líka mikilvægur fyrir efna­skipti í tauga­kerf­inu sem hafa áhrif á virkni boða til heil­ans í vöku og hafa þannig áhrif á skap, minni, einbeitingu, hvatvísi og hæfni til náms. Langvarandi skerðing á svefni veldur þreytu og streitu sem hefur svo áhrif á ónæmiskerfi barnsins, líkamlega og andlega heilsu. Ef barn fær ekki nægan svefn eru því líkur á að það verði oftar veikt, fái kvef og aðrar umgangspestir. Skerðing á dagsvefni veldur því að barnið vakn­ar óút­sofið og er enn þreytt, spenn­an í lík­am­an­um eykst yfir dag­inn þannig að því get­ur reynst erfitt að sofna að kvöldi. Ef barn á auðvelt með að vakna er það að fá nægan svefn. Vel sofið barn er ánægt, lífs­glatt og til­búið til að takast á við verkefni sín með glöðu geði, það er mun lík­legra að því líði vel bæði andlega og lík­am­lega.

Svefnþörf barna eftir aldri (samkvæmt Heilsuveru):

0-3 mánaða 14-17 klst.

4-11 mánaða 12-15 klst.

1-2 ára 11-14 klst.

3-5 ára 10-13 klst.

6-13 ára 9-11 klst.

Í leikskólanum fá öll börn hvíld eftir hádegismatinn í misstórum hópum með kennara. Yngri börnin leggjast á dýnu með kodda og teppi, snuð og bangsa eða annað sem þau vilja hafa til að sofna, sum þeirra allra yngstu sofa úti í kerru. Eldri börnin sitja eða liggja á dýnu og hlusta á sögu og eru svo í rólegum leik. Það er misjafnt hve gömul þau eru þegar þau hætta að sofa á daginn en yfirleitt gerist það um og eftir 3 ára aldur þó dæmi séu um að börn að 5 ára aldri þurfi daglúr. Svefn barna í leikskólanum er skráður í Karellen-kerfið sem foreldrar hafa aðgang að og geta fylgst með svefni barna sinna í gegnum það.


Heimildir:

Guðlaug Sjöfn Jónsdóttir. (2006). Heilsustefnan: Heilsuleikskólinn Urðarhóll. Reykjavík: IÐNÚ.

Heilsuvera. (2023). Svefn og hvíld. Sótt af: https://www.heilsuvera.is/efnisflokkar/svefn-og-hvild/


Ýmsar góðar upplýsingar um stefnuna:

Vefur Heilsustefnunnar

Áhersluþættir heilsustefnunnar

Næringarstefna Samtaka Heilsuleikskóla


Tenglar á efni um börn og heilsu:

Á vefnum Heilsuvera eru ýmsar upplýsingar m.a. um næringu og hreyfingu auk svefnsins.

Færni til framtíðar - um börn og hreyfingu á facebook