Innskráning í Karellen

Stærðfræði í leik

Í leikskólanum er stærðfræðiteymi kennara sem leggur línurnar fyrir allan leikskólann í stærðfræði. Tekin eru fyrir ákveðnir þættir í stærðfræði til að leggja áherslu á í ákveðinn tíma t.d. form, litir, tölur, talning, ýmis stærðfræðihugtök eins og stærð, magn, þyngd o.fl. Námið fer svo fram í gegnum leik og efniviður eins og ýmsir kubbar, púsl, spil o.fl. notuð til að veita börnunum tækifæri til að læra. Einnig eru til lög, vísur og þulur sem börnin læra og tengjast stærðfræði. Það gefast tækifæri allan daginn til að vinna með stærðfræði og hægt að flétta henni inn í allt sem gert er í leikskólanum.

MIO

MIO er skimunarefni í stærðfræði fyrir leikskóla til að meta stærðfræðiþroska barna og varð til í Háskólanum í Stavanger. MIO er skammstöfun fyrir Matematikken – Individet – Omgivelsene. Í íslenskri þýðingu Stærðfræðin – Einstaklingurinn – Aðstæðurnar. Þýðendur eru Dóróþea Reimarsdóttir, Jóhanna Skaftadóttir og Þóra Rósa Geirsdóttir.

Börn á leikskólaaldri eru umkringd stærðfræði, kanna hana og nota í mörgum af sínum viðfangsefnum. Áhersla er lögð á að börn öðlist reynslu af stærðfræðinni í gegnum leikinn. Hvert barn er skimað þrisvar á leikskólagöngunni. Skimunin fer fram við daglegar athafnir og starf í skólanum og taka allir starfsmenn þátt í henni. Matið tekur til þriggja meginsviða stærðfræðinnar sem eru þrautalausnir, rúmfræði og talning og þrautir. Hvatning og reynsla af stærðfræði veitir góðan grunn fyrir frekari þroska. Áhersla á stærðfræði á unga aldri hefur einnig þýðingu fyrir námsárangur síðar á skólagöngunni (Dowker, 2005)