Innskráning í Karellen

Jákvæður agi

Uppeldisstefnan Jákvæður agi byggir á sjálfsstjórnarkenningum (Alfred Adler, Rudolf Dreikurs, William Glasser, Jane Nelsen o.fl.) þar sem í stað þess að reyna að breyta hegðun með umbun og refsingu er horft á orsakir hegðunar og unnið út frá því. Skólar sem vinna eftir Jákvæðum aga leitast við að móta umhverfi og andrúmsloft sem einkennist af umhyggju og byggist á gagnkvæmri virðingu, reisn, vinsemd og festu.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir hvaða áhrif uppeldisaðferðir hafa. Þær aðferðir sem notaðar eru ættu að hafa jákvæð og uppbyggjandi langtímamarkmið. Börn þróa ekki með sér ábyrgðarkennd ef fullorðnir eru of stýrandi og stífir, ekki heldur ef þeir eru of eftirgefanlegir. Börn verða ábyrgðarfull ef þau fá tækifæri til að læra af mistökum og þroska félagsfærni sína í gegnum lífsleikni í andrúmslofti virðingar, góðvildar og festu.

Jákvæður agi kennir félagsfærni og lífsleikni og byggir á kennslu, skilningi, hvatningu og samskiptum. Markmiðið er að börn, í samvinnu við fullorðna, þroski og efli með sér ábyrgðarkennd, færni í að finna lausnir og setja sér mörk.


Grunnhugtök Jákvæðs aga:

Virðing endurspeglast í þeirri kurteisi sem fólk sýnir hvert öðru, hvernig það talar við aðra og um það og hvernig það fer með eigur annarra. Tal og framkoma sem einkennist af virðingu veitir fólki þá reisn sem því ber.

Góðvild er að sýna væntumþykju og hlýju í verki en ekki að skamma, niðurlægja eða lesa yfir öðrum.

Festa felst í því að standa við það sem sagt er og sjá til þess að fyrirfram ákveðnum verkefnum verði lokið.


Lykilþættir:

Gagnkvæm virðing. Fullorðnir sem sýna sjálfum sér virðingu og þeim aðstæðum sem uppi eru sýna góðvild og festu. Á þann hátt virða þeir þarfir barnsins.

Skilningur á orsökum hegðunar. Um leið og skilningur fyrir ákveðinni hegðun er fyrir hendi er mun auðveldara að breyta eða stöðva þá hegðun. Að bregðast við ástæðum hegðunar getur jafnvel verið mikilvægara en að bregðast við hegðuninni sjálfri.

Virk samskipti. Að nota opnar spurningar, hvað, hvernig, hvers vegna. Að nota virka hlustun, að heyra hvað sagt er. Að gefa börnum tækifæri til að taka þátt í samskiptum í stað þess að segja þeim hvað þau eiga að segja og gera.

Þekking og skilningur á heimi barnsins. Þegar skilningur á heimi barnsins er fyrir hendi er hægt að velja rétt viðbrögð við hegðun þess. Að vita hvar barnið er statt á þroskabraut sinni, að þekkja skapferli þess og félags- og tilfinningalegan þroska.

Áhersla á lausnir. Ásakanir leysa ekki vandamál. Velja þarf leiðir að lausnum. Með auknum þroska barnsins eykst samvinna í að finna jákvæðar lausnir á þeim aðstæðum sem koma upp. Leiðir að lausnum virka betur þegar börnin eru þátttakendur í ákvörðunum.

Hvatning hvetur börn til að reyna sig áfram og bæta sig en er ekki eingöngu staðfesting á góðum árangri. Hvatning hjálpar börnum að verða örugg með eigin hæfileika og getu.

Börnum gengur betur þegar þeim líður vel. Þau eru mun tilbúnari til samstarfs, að læra nýja hluti. Þau sýna hlýju og virðingu þegar þau finna hvatningu og væntumþykju. Börnum sem líður illa og finnst þau niðurlægð eða skammast sín gengur ekki vel að tileinka sér ný viðhorf eða nýja hegðun.


Í jákvæðum aga eru ýmis verkfæri sem við notum í starfi með börnunum en það er misjafnt eftir aldri og þroska hvernig þau eru útfærð:

  • Vinafundir (barnafundir), þar sem börnin læra að sitja saman, tjá sig og hlusta á aðra. Á þessum fundum er t.d. hægt að ræða vandamál sem hafa komið upp og finna lausnir á þeim.
  • Lausnahjól eru með tillögur að lausnum með myndum sem börn geta notað þegar þau finna ekki lausnir sjálf t.d. þegar þau eru í uppnámi eða ef ágreiningur kemur upp milli barna.
  • Ábyrgðarhlutverk, börnin skiptast á að sinna hlutverkum sem fylgja ákveðin ábyrgð og skyldur. T.d. borðþjónn, bókavörður, flokkunarstjóri o.fl.
  • Kósíkot (griðarstaður) er staður sem börn geta valið um að fara á ef þau komast í uppnám og vilja jafna sig í friði.
  • Vinna með tilfinningar er stór þáttur í lífsleikni. Börn þurfa að læra að þekkja tilfinningar sínar og setja orð á þær til að geta tjáð þær og lært jákvæðar leiðir til að ná tökum á þeim og fá útrás fyrir þær.


Meiri upplýsingar um Jákvæðan aga má fá hér:

Vefur Jákvæðs aga á Íslandi

Handbók Jákvæðs aga - kynning á stefnunni


Framkvæmd Jákvæðs aga á Álfasteini:

Jákvæður agi á Álfasteini 2019-2020

Jákvæður agi á Álfasteini 2016-2017

Jákvæður agi á Álfasteini 2015-16

Innleiðingaráætlun Jákvæðs aga á Álfasteini 2013-15