Innskráning í Karellen

Það að læra að tala og ná tökum á tungumáli er flókið ferli. Oft kemur þetta nokkuð eins og af sjálfu sér en þó er nauðsynlegt að börnin fá örvun þegar kemur að málþroska. Börn sem eru böðuð í tungumáli verða fljótari að tileinka sér málið og búa oft yfir ríkulegum orðaforða og góðri málfærni þegar kemur svo að lestrarnámi í grunnskóla.

Lögð er áhersla á málörvun við hæfi hvers og eins. Börnin auka við orðaforða sinn með fjölbreyttum umræðuefnum og merkingu einstakra orða og hvernig hægt er að nota þau í ólíkum setningum. Börnin fá þjálfun í að tjá sig fyrir framan aðra, skiptast á skoðunum, hlusta og bíða eftir að röðin komi að þeim t.d. á vinafundum og í samverustundum. Læsi er gert sýnilegt m.a. með því að hafa bókstafi, tölustafi og form á veggjum leikskólans ásamt sjónrænu skipulagi. Einnig fá börnin mörg tækifæri til að æfa sig í ritun með því að teikna og skrifa eigin sögur með táknum og bókstöfum sem þau kunna.

Tákn með tali

Við notum tákn með tali til að styðja við máltöku barnanna og auðvelda þeim sem lengur eru að tileinka sér talað mál að tjá sig. Tákn með tali er tjáningarform þar sem notuð eru tákn um leið og talað er og aðeins lykilorð í setningum eru táknuð. Það hefur líka þann kost að hinir fullorðnu hægja á tali sínu og verða skýrari í máli þannig að börnin ná betur því sem sagt er. Táknin eru oftast myndræn og lýsandi og sum þeirra fengin úr íslenska táknmálinu.

Tákn með tali - vefur með fróðleik um tákn með tali og safn af táknum

Lubbi finnur málbein

Í leikskólanum er námsefnið Lubbi finnur málbein notað til að kenna íslensku málhljóðin en það er skemmtilegt efni sem talmeinafræðingarnir Eyrún Ísfold Gísladóttir og Þóra Másdóttir eru höfundar að. Það fer eftir aldri og þroska barnanna hvernig unnið er með efnið en það er m.a. gert með því að lesa sögurnar í bókinni, syngja Lubbalögin, gera hljóðin með hreyfingum, finna orð sem byrja á hljóðinu, skoða dót sem við höfum safnað í Lubbabox o.fl. Farið er yfir málhljóðin í þeirri röð sem börn tileinka sér þau í máltökunni.

Lubbi finnur málbein - vefur um námsefnið


Það eru nokkrir þættir sem við fylgjumst með í málþroska barna eins og skilningur, tjáning, framburður og hljóðkerfisvitund.

EFI-2 er málþroskaskimun sem notuð var á heilsugæslum landsins þegar 3 ½ árs skoðun var en eftir að það breyttist í 4 ára skoðun voru leikskólar hvattir til að taka við þessari skimun. Með henni skoðum við málskilning og tjáningu hjá öllum börnunum þegar þau eru um 3 ½ árs aldurinn. Ef niðurstöður gefa til kynna að eitthvað þurfi að athuga betur höfum við samband við foreldra, ræðum málið og ákveðum næstu skref.

Hljóm-2 er athugun á hljóðkerfisvitund barna og er gerð að hausti þegar börnin eru á 5. aldursári. Rannsóknir sýna að niðurstöður úr þessari athugun geti gefið til kynna hvernig barni muni ganga með lestrarnám í grunnskóla. Ef niðurstöður eru slök eða mjög slök færni höfum við samband við foreldra og vinnum sérstaklega með þeim börnum til að þjálfa þessa þætti. Athugunin er svo endurtekin í febrúar til að sjá framfarir. Niðurstöður úr Hljóm-2 eru sendar ásamt öðrum gögnum í grunnskóla barnsins.


Nokkrir tenglar á áhugavert efni um málþroska og læsi í leikskóla:

Bæklingur um málþroska barna 0-3 ára

Bæklingur um málþroska barna 3-6 ára

Orðaforðalisti - hugtök sem æskilegt er að börn á leikskólaaldri hafi á valdi sínu

Orðaleikur - þróunarverkefni, námsefni fyrir börn af erlendum uppruna sem eru að læra íslensku sem annað mál

Matur og munnur - Sonja Magnúsdóttir talmeinafræðingur fjallar um málþroska, matarinntöku o.fl. á facebook

Læsi er lykillinn - um læsi og læsiskennslu í leik- og grunnskólum

Almenn málörvun barna - um málörvun af vef Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands

Gæðamálörvun í daglegu starfi - á vefnum Miðja máls og læsis